Eftir að Sigurgeiri Jónssyni hafði tekist að auka virði fjármálaafurða sem fjárfestar höfðu keypt af bandarískum bönkum fyrir fjármálakrísuna, tók hann höndum saman við mann sem hann hafði kynnst í ferlinu. Saman tókust þeir á við bankana á ný, en þeir áttu eftir að eiga mikið og gott samstarf í framtíðinni. „Það kemur upp ákveðið tækifæri sem við hjólum í saman, sem er að fara á eftir misræmi og svikum í húsnæðislánum frá því fyrir hrun. Við vorum fengnir til að vera það sem er kallað virkir stjórnendur stórs sjóðs skuldabréfavafninga (e. CDO) og fara á eftir bönkunum og öllum þeim sem voru að búa til lánin, alls staðar þar sem var um mistök að ræða. Bandaríski markaðurinn virkar þannig að þú ert með fullt af aðilum af öllum stærðum sem veita fasteignalán en selja þau svo áfram til endakaupenda. Þegar það er gert fylgir með lánunum það sem er kallað „reps and warranties“, sem felur í sér staðfestingu og ábyrgð söluaðila á að allar upplýsingar séu réttar. Upplýsingar eins og starf lántaka, launatekjur, það hvort hann sé búsettur í viðkomandi fasteign, og veðsetningahlutfall.“ Ábyrgðin fylgi láninu við hvert skref, svo úr verði keðjuábyrgð. „Ef upplýsingarnar reynast rangar ber söluaðila að kaupa lánið til baka á nafnvirði, skilyrðislaust.“

Sigurgeir segir stöðu þeirra fjárfesta sem keypt höfðu í húsnæðislánasjóðum (e. RMBS) hafa verið um margt svipaða og þeirra sem keyptu innpakkaðar fjármálaafurðir. Allar upplýsingar um undirliggjandi eignasafn hafi verið hjá útgefanda bréfsins og einstakir fjárfestar mátt sín lítils. „Ef þú átt í svona sjóði ertu í fyrsta lagi bara einn af mörgum eigendum og þú veist ekkert hverjir hinir eru, þannig að það er mjög erfitt fyrir þig að aðhafast nokkuð þótt þig gruni að ekki sé allt með felldu. Það eru engir hluthafafundir eða neitt slíkt, en til að geta knúið vörsluaðila safnsins til aðgerða þarftu meirihluta eigenda og eitthvað meira en hugdettu.“ Viðkomandi fái því mjög takmarkaðar upplýsingar. „Þannig að ef þú ætlar að reyna að sanna að eitthvað lán sé slæmt þarftu að fá meirihluta eigenda í málaferli, þar sem þú þarft að hafa einhver sönnunargögn í höndunum til að fá lánaskjölin afhent.“

Þótt vandamálið hafi verið svipað var lausnin hins vegar önnur og öllu umfangsmeiri. „Þegar við byrjuðum á þessu vissum við í raun ekki nákvæmlega hvernig við ætluðum að gera þetta, eins og er stundum í lífinu,“ segir Sigurgeir, sem lét það ekki á sig fá, enda fljótlegasta og besta leiðin til að læra nýja hluti einfaldlega að taka að sér krefjandi verkefni og læra af reynslunni. „Ef þú telur þig geta það, og hjólar í það, þá er ansi oft hægt að fylla upp í eyðurnar.“

Kortlagning allra fasteignaviðskipta eina leiðin
Félagarnir komust fljótt að því að eina leiðin til að gera þetta væri að setja saman algrím sem kortlegði öll fasteignaviðskipti Bandaríkjanna við viðkomandi sjóði til að finna út hvaða fasteignir og lántakar tilheyrðu hvaða láni með samanburði og útilokun. Gögnin sem þeir notuðu ná yfir öll fasteignaviðskipti Bandaríkjanna frá 1980 til dagsins í dag. „Við hönnuðum þetta sem rauntímakerfi og því þurfum við ekki að hafa öll gögn til staðar í eigin gagnagrunni, heldur finnur kerfið út svarið með samspili okkar gagnagrunna, tugum ytri gagnaveitna sem við samtengjum og svo upplýsingum af hefðbundnum vefsíðum. Flókið net sem leysir svarið á sekúndubroti.“

Í krafti hinnar nýju lausnar var félag Sigurgeirs í broddi fylkingar í einu stærsta dómsmáli á þessu sviði sem niðurstaða fékkst í utan dómstóla – gegn alþjóðlega fasteignafélaginu Countrywide – en sökum þess hvernig málið var leitt til lykta getur hann ekki farið nánar út í endanlega niðurstöðu þess. „Við gátum sýnt fram á hluti eins og að lántaki ætti aðrar eignir, og jafnvel hvert hann fengi póstinn sinn. Einnig gat komið í ljós að viðkomandi hefði ekki borgað fyrstu afborgun, jafnvel þótt greiðslan hafi verið staðfest af lánveitanda, og þá gátum við sýnt fram á að verðmatið á bak við veðhlutfall margra þessara lána var algerlega út úr kortinu. Við vorum semsagt með kerfi sem gat greint nánast alla galla við lánin, án þess að þurfa aðgang að lánaskjölum viðkomandi lánastofnunar. Við þurftum því ekki að fara í gegnum dómstóla til að fá aðgang að gögnum, heldur unnum við einfaldlega upplýsingarnar út frá gögnum sem þegar lágu fyrir, og gátum í framhaldinu sagt til um gæði tiltekins láns. Þetta gerði okkur kleift að vera mjög sértækir í kröfum okkar fyrir dómi.“

Nánar er rætt við Sigurgeir í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .