*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 26. september 2019 13:21

Krefja Magnús Ólaf um 1,2 milljarða

Þrotabú Sameinaðs Sílíkons hafa stefnt Magnúsi Ólafi Garðarssyni og krefjast 1,2 milljarða króna greiðslu.

Ritstjórn
Magnúsi Ólafi Garðarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinaðs silíkons, hefur verið stefnt af þrotabúi félagsins.
Haraldur Guðjónsson

Magnúsi Ólafi Garðarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinaðs silíkons, hefur verið birt stefna í Lögbirtingablaðinu í dag. Það er þrotabús Sameinaðs silíkons sem stefnir Magnúsi og krefur hann um ríflega 1,2 milljarða króna greiðslu, auk vaxta aftur til ársins 2013. Þá er einnig krafist að fasteignir í Kópavogi og Danmörku verði kyrrsettar auk Mercedes Benz bifreiðar. 

„Stefndi hafi gróflega misnotað aðstöðu sína með saknæmum og ólögmætum hætti til millifærslu fjármuna af reikningum stefnanda. Háttsemin hafi verið úthugsuð, þaulskipulögð og ásetningur til brota verið einbeittur. Með háttsemi sinni hafi stefndi valdið stefnanda því tjóni sem skaðabótakrafa máls þessa kveður á um,“ segir í stefnunni.

Stærsta málið sem fjallað er um í stefnunni varðar hollenskt fyrirtæki, Pyromet Engineering og er Magnúsi gefið að sök að hafa millifært yfir milljarð króna af reikningum Sameinaðs silíkons yfir á félagið. Samtals nema greiðslurnar ríflega einum milljarði króna og voru gerðar á tímabilinu 23. október 2013 til 27. ágúst 2015 af bankareikningi Stakksbrautar 9 til hollenska félagsins. 

Pyromet var stofnað í Hollandi þann 4. september 2013, en skráður eigandi og stjórnarmaður félagsins var Joseph Dignam, sem er fyrrverandi sambýlismaður móður stefnda. 

Magnús gekkst við því að hafa millifært greiðslurnar til Pyromet í skýrslutöku sem gerð var síðastliðinn júní. Hélt Magnús því fram að Pyromet Engineering hefði verið verktakafyrirtæki, sem veitti sérfræðiþjónustu, m.a. við hönnun á kísilmálmverksmiðjunni. Aðspurður gat hann þó hvorki bent á neina afurð af samstarfinu við Pyromet Engineering, né útskýrt nákvæmlega í hverju meint vinna félagsins fólst fyrir Stakksbraut 9. Hann gat ekki heldur útskýrt hverjir starfsmenn félagsins væru eða hverjir tengiliðir hans hefðu verið hjá félaginu.

„Þannig virðist ljóst að stefndi hefur gefið skiptastjóra stefnanda rangar og villandi skýringar á greiðslunum til Pyromet Engineering. Hið rétta virðist vera að stefndi millifærði greiðslur frá Sameinuðu sílikoni um árabil til félags undir hans stjórn í Hollandi, sem stofnað var sérstaklega til að hafa milligöngu um ólögmætar greiðslur,“ segir í stefnunni. 

„Stefnandi kveður engin bókhaldsgögn vera til staðar í félaginu Stakksbraut 9 ehf. Svo virðist sem þeim hafi verið eytt til að leyna brotum stefnda,“ segir ennfremur í stefnunni. 

Magnúsi er stefnt fyrir fleiri greiðslur sem talið hafa verið gerðar í auðgunartilgangi til að mynda voru 130 milljónir króna greiddar af reikningi Sameinaðs sílikons til hollenska félagsins USI Holding B.V. sem var í meirihlutaeigu Magnúsar.

Sameinað sílikon hf. var stofnað þann 17. febrúar 2014 og var tilgangur félagsins rekstur á kísilmálmverksmiðju á Reykjanesi. Félagið fór í greiðslustöðvun þann 14. ágúst 2017 eftir mikinn rekstrarvanda og var úrskurðað gjaldþrota af Héraðsdómi Reykjaness þann 22. janúar í fyrra.