Með nýjum afgreiðslutíma þar sem opið er skemur á fimmtudögum en verið hefur í tvo áratugi hyggst verslunarmiðstöðin Kringlan að hagræða vegna íþyngjandi launakostnaðar fyrir rekstraraðila sína að því er fram kemur á vef Fréttablaðsins .

Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri Kringlunnar segir breytinguna nú koma í kjölfar sérstakra aðstæðna á markaði vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins, þar sem verslunum hafi verið heimilt að hafa opnunartímann frjálsan í apríl og maí.

„Eftir það tók við ákveðinn lágmarksopnunartími en núna erum við að festa afgreiðslutíma Kringlunnar til framtíðar," segir Sigurjón Örn segir suma rekstraraðila hafa viljað hafa opið lengur, aðrir skemur.

„Launakostnaður hefur orðið mjög íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Það hefur verið mikil hækkun á launum síðustu ár og þetta er liður í því að leita leiða til að hagræða. Við erum að draga úr afgreiðslutímum um fjórar stundir sem eru allt yfirvinnustundir."