Kröfuhafar í Glitni hafa lagt fram breytingu á tillögu sinni til stöðugleikaframlags þar sem þeir leggja til að öllum eignarhlut Glitnis í Íslandsbanka verði afsalað til ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins í nótt. Í fyrri tillögum ríkti sterkur hvati fyrir sölu bankans til erlendra aðila en fallið hefur verið frá þeim tillögum.

Tillögur kröfuhafa eru:

  • Sem hluti af stöðugleikaframlagi mun Glitnir afsala öllu hlutafé ISB Holding ehf., sem er eigandi 95% hlutafjár Íslandsbanka hf., til stjórnvalda. Eigið fé Íslandsbanka nam um 185 ma.kr. í lok júní 2015. Vegna þessarar breytingar falla eftirfarandi þættir í fyrri tillögum kröfuhafa Glitnis niður
  • Afkomuskiptasamningur um arðsemi hlutafjár Íslandsbanka;
  • Skilyrt skuldabréf að fjárhæð 119 ma.kr.;
  • Arðgreiðsla Íslandsbanka í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 16 ma.kr. til Glitnis og aðrar fyrirhugaðar arðgreiðslur.
  • Framsal lausafjáreigna, reiðufjár og ígildi reiðufjár, mun samkvæmt framangreindri tillögu lækka um 16  ma.kr. vegna fyrirhugaðrar arðgreiðslu í erlendum gjaldeyri til Glitnis, sem ekki verður af, og 36 ma.kr. vegna annarra breytinga sem felast í endurskoðuðum tillögum kröfuhafa Glitnis. Umbreyting innlána Glitnis í erlendum gjaldeyri í Íslandsbanka í staðlaða skuldabréfaútgáfu mun taka mið af sérstöku samkomulagi Glitnis og Íslandsbanka. Glitnir mun greiða fyrir og eignast fyrirgreiðslu ríkissjóðs við Íslandsbanka sem veitt var í formi víkjandi skuldabréfs í erlendri mynt á nafnvirði auk greiðslu áfallinna vaxta.

Fram kemur tilkynningunni að framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta telji að þessar tillögur kröfuhafa Glitnis falli að stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda. Ef gengið verður að tillögunum þá eru því forsendur fyrir undanþágu á gjaldeyrishöftum.