Núverandi gengi krónunnar er langt yfir því gengi sem tryggir innra og ytra jafnvægi þjóðarbúsins segir í nýrri skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka. "Mat okkar er að það gengi sé um það bil 20% undir núverandi gengi. Krónan er því talsvert ofmetin miðað við langtímajafnvægi þjóðarbúsins og mun innlendra og erlendra vaxta," segir greining Íslandsbanka.

Í skýrslunni er bent á að gengi krónunnar er of hátt og leiðrétting er næsta rökrétta skref. Ljóst er að lækkunin gæti orðið nokkuð skörp þegar að henni kemur. Margir sem tekið hafa stöðu í krónunni munu vilja losa sig út úr þeim áður en að lækkuninni kemur. Hjarðhegðun mun líklega einkenna markaðinn þegar menn telja að lækkunarhrinan sé hafin, en það í sjálfu sér veldur því að lækkunin gæti orðið mjög skörp og endað í yfirskoti. Í þess háttar yfirskoti er ekki ósennilegt rýrnun um ríflega fjórðung á verðgildi krónunnar frá núverandi gildi eigi sér stað. Slík lækkun gæti orðið á einungis örfáum mánuðum segir í skýrslu greiningardeildar.

Leiðrétting á gengi krónunnar er fyrirsjáanleg fyrir lok yfirstandandi stóriðjuframkvæmda, þ.e.a.s. á næstu tveimur árum. Við spáum því að gengi krónunnar byrji að lækka á síðari helmingi þessa árs og að lækkunarhrinan verði nokkuð skörp. Spáum við því að gengisvísitala krónunnar verði komin í 125 í árslok 2005 sem er 12% lækkun frá núverandi gildi. Á næsta ári heldur gengislækkun krónunnar áfram og líklega verður krónan tímabundið vanmetin á meðan markaðurinn leitar að nýju jafnvægi. Við teljum að gengisvísitalan fari hæst í um 140 stigum um miðbik næsta árs, en að vísitalan lækki á ný fyrir árslok 2006 og að markaðurinn finni nýtt jafnvægi í gengisvísitölu á bilinu 130 til 135 í byrjun ársins 2007.

"Gengislækkun krónunnar af þeirri stærðargráðu sem við teljum að framundan sé mun hafa víðtæk áhrif á innlent efnahagslíf. Lækkunin mun valda aukinni verðbólgu, rýrnun kaupmáttar, samdrætti í einkaneyslu og almennum þjóðarútgjöldum. Verðbólgan gæti farið í 8% strax á næsta ári í kjölfar yfirskots á gjaldeyrismarkaði. Innflutningur mun dragast hratt saman en útflutningur mun að sama skapi fara vaxandi vegna bættrar stöðu þeirra fyrirtækja sem helst keppa við erlend. Viðskiptahallinn mun minnka en erlend skuldastaða þjóðarbúsins versna. Hagvöxtur á næsta ári verður því minni en í ár og drifinn áfram af vaxandi útflutningi í stað aukinna þjóðarútgjalda og árið 2007 er líklegt að hagkerfið nái jafnvægi á ný," segir í skýrslu greiningardeildar.