Krónan hlaut í gær viðurkenningu fyrir eftirtektarverðustu samfélagsskýrslu ársins. Viðurkenningin er samstarfsverkefni Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, Stjórnvísis og Viðskiptaráðs Íslands og er þetta þriðja sinn sem viðurkenningin er veitt.

Alls bárust 27 tilnefningar í ár og voru það 19 skýrslur sem hlutu tilnefningu. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Krónan lítur á sig sem mikilvægan þátttakanda í samfélaginu og gerir sér grein fyrir því að í krafti stærðar sinnar geti fyrirtækið haft áhrif til góðs. Í því samhengi hefur umhverfisvernd, lýðheilsa og upplýst val verið skilgreind sem mikilvægustu málefnin.

Auk kerfisbundinnar nálgunar á framsetningu um markmið, ásetning og árangur fyrirtækisins í þáttum sem lúta að samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni er í skýrslunni nefnd ýmis dæmi um framgöngu í verki.

Markmiðið með viðurkenningunni fyrir Samfélagsskýrslu ársins er að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta reglulega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi.

Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Nauthólsvík í gær. 9. júní, og var það Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir markaðsstjóri Krónunnar sem tók við þeim fyrir hönd Krónunnar.