Allt að 28% verðmunur reyndist vera á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í átta matvöruverslunum síðastliðinn mánudag. Matarkarfan var ódýrust í Krónunni þar sem að hún kostaði 10.103 kr. en dýrust í Nóatúni þar sem hún kostaði 12.912 kr. sem er 28% verðmunur eða 2.809 kr. Athygli vekur að lítill verðmunur var á verði matarkörfunnar á milli Bónus, Krónunnar og Víðis, en karfan var aðeins 26 kr. dýrari í Bónus en í Krónunni, og 179 kr. dýrari í Víði.

Verslunin Kostur Dalvegi neitar ítrekað þátttöku í verðkönnunum ASÍ og heimilar ekki starfsfólki þess að taka niður verð í verslun sinni. Dæmi eru um mikinn verðmun í öllum vöruflokkum í þessari matarkörfu. Sem dæmi má nefna að 250 ml. KEA skyrdrykkur m/hindberjum&trönuberjum var ódýrastur 128 kr./st. hjá Bónus en dýrastur á 148 kr./st. í Nóatúni, sem er 16% verðmunur. Morgunkornið Cheerios var ódýrast á 804 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum en dýrast á 1.254 kr./kg. hjá Nóatúni, sem er 56% verðmunur. Íslensk gúrka var ódýrust á 365 kr./kg. hjá Bónus en dýrust á 478 kr./kg. í Fjarðarkaupum, sem er 31% verðmunur.

500 gr. poki af Merrild kaffi var ódýrastur á 748 kr. hjá Fjarðarkaupum en dýrastur á 947 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 27% verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á „Ódýrasta kínakálinu“ sem var dýrast á 589 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali og ódýrast á 269 kr./kg. hjá Bónus sem er 119% verðmunur.

Matarkarfan samanstendur af 33 almennri neysluvöru til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjavörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru. Í þessari könnun var ýmist skoðaður ódýrasti valkostur af ákveðinni vöru t.d. ódýrasta kílóverðið af hveiti eða ákveðið vörumerki t.d. O.B tíðartappar. Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð, ber á því að afslættir séu ekki sýnilegir og eru þeir þess vegna ekki teknir með. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus Korputorgi, Krónunni Höfða, Nettó Borgarnesi, Fjarðakaupum, Samkaup Úrval Hafnarfirði, Víði Skeifunni, Hagkaupum Skeifunni og Nóatúni við Nóatún. Kostur Dalvegi neitaði að taka þátt í könnuninni. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.