Undanfarið hefur króna styrkst gagnvart evru á aflandsmarkaði. Nemur styrkingin 10% frá því um miðjan ágúst. Á sama tíma hefur gengi krónu gefið eftir um tæplega 1% gagnvart evru á innlendum gjaldeyrismarkaði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Evran kostar nú u.þ.b. 200 krónur á fyrrnefnda markaðinum en tæplega 182 krónur á þeim síðarnefnda. Munurinn nemur ríflega 10% og hefur hann ekki verið minni á þessu ári að sögn Greiningar Íslandsbanka.

Mestur var munurinn tæplega 95% í lok mars síðastliðins þegar evran kostaði 300 krónur á aflandsmarkaði en 154 krónur á innlendum gjaldeyrismarkaði.

„Minnkandi áhættufælni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum kann að leika hér hlutverk eins og raunin var á innlendum gjaldeyrismarkaði fyrir innleiðingu gjaldeyrishaftanna;“ segir í Morgunkorni.

„Þróun flestra helstu kvarða á áhættufælni gefur til kynna að talsvert hafi dregið úr ótta fjárfesta við áhættu undanfarna mánuði.“

Greining Íslandsbaka segir að minni munur á gengi krónunnar á aflandsmarkaði og innlendum markaði dragi úr ábata þess að fara framhjá gjaldeyrishöftunum. Þannig kunni minni munur á þessum tveimur mörkuðum að skýra að hluta af hverju velta á innlendum markaði hefur aukist, krónan haldist nokkuð stöðug undanfarið og Seðlabankinn þurft minna að verja gengi krónunnar með inngripum en svo virðist sem september hafi verið umfangsminnsti mánuður ársins í inngripum á gjaldeyrismarkaði.

Sjá nánar í Morgunkorni.