Líklegt er talið að stjórnvöld eyríkisins Kýpur verði þau næstu sem muni leita á náðir Evrópusambandsins eftir neyðarláni. Í breska dagblaðinu Financial Times um helgina eru leiddar að því líkur að ráðamenn fari á hnén í þessum mánuði þar sem bankar landsins hafi komið illa undan vandræðaganginum í nágrannaríkinu Grikklandi.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal bætir því við að næst stærsti banki Kýpur hafi þegar leitað eftir ríkisláni. Þar segir jafnframt að bankabjörgun landsins komi illa við fjárhag Kýpur og muni landið ekki ná áætlun í ríkisfjárlögum.

Gangi það eftir verður þetta fjórða ESB-ríkið til að þurfa á hjálp að halda vegna greiðsluvanda.