*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 5. mars 2015 09:33

Lægra olíuverð eykur hagvöxt

Ef olíuverð helst 50 dollurum minna en það var að meðaltali í fyrra gæti það bætt allt að 1% við hagvöxt á næstu tveimur árum.

Kári Finnsson
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segir að ef bensínverð hefði verið óbreytt síðustu 12 mánuði hefði verðbólgan í dag verið um 0,9% hærri en hún er.
Haraldur Guðjónsson

Áætla má að fyrir hverja 10 dollara lækkun á heimsmarkaðsverði olíu muni hagvöxtur á Íslandi aukast um 0,2 prósentustig. Þetta kemur fram í rannsókn Hagfræðideildar Landsbankans á áhrifum olíuverðs á íslenskt hagkerfi.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildarinnar, heldur erindi í dag á morgunfundi Landsbankans um orsakir og afleiðingar þeirrar miklu lækkunar olíuverðs sem hefur verið upp á síðkastið. Spurður að því hver helsta ástæðan sé fyrir verðlækkuninni segir Daníel að almennt sé fólk sammála um að hún sé að megninu til framboðstengd.

„Um 70% af verðlækkuninni skýrast af auknu framboði og kannski 30% af minni umsvifum í heimshagkerfinu heldur en reiknað var með,“ segir hann. „Það hefur komið á óvart hversu mikil aukning á olíuvinnslu í Bandaríkjunum hefur verið. Framleiðsluaukningin þar hefur ítrekað verið umfram spár á sama tíma og framboðsminnkunin frá löndum í Mið-Austurlöndum hefur verið minni en margir reiknuðu með.“

Fyrstu augljósu áhrifin vegna olíuverðslækkunarinnar á íslenskt hagkerfi koma fram í verðbólgunni að sögn Daníels. „Þá sjáum við að bensínverð við dæluna hefur fylgt lækkuninni á heimsmarkaði nokkuð vel eftir. Ef bensínverð hefði verið óbreytt síðustu 12 mánuði en ekki lækkað eins og hefði gerst þá hefði verðbólgan í dag verið um 0,9% hærri en hún er. Þetta eru alveg augljós áhrif sem má rekja beint til lækkunar á heimsmarkaðsverði,“ segir Daníel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.