Matsfyrirtækið Moody's hefur ákveðið að lækka lánshæfiseinkunn Japans úr Aa3 flokki niður í A1. Var ákvörðunin tekin vegna óvissu um greiðslugetu japanska ríkisins þar sem ríkisskuldir hafa farið hækkandi. CNN greinir frá þessu,

Efnahagshorfur í Japan hafa farið versnandi að undanförnu. Þannig olli landsframleiðsla í landinu á þriðja ársfjórðungi nokkrum vonbrigðum, en hún dróst saman um 1,6% á tímabilinu. Búist hafði verið við 2,1% hagvexti. Á öðrum ársfjórðungi varð einnig samdráttur í landsframleiðslu, en þá nam hann 7,3%.

Í umsögn Moody's segir þó að horfurnar í japönsku efnahagslífi séu stöðugar og ólíklegt sé að landið verði fært niður um annan flokk einhvern tímann á næstunni.