Landsbankinn hefur styrkt landssöfnun Lionshreyfingarinnar á Íslandi, Rauðu fjöðrina, um 1.000.000 kr. Í landssöfnuninni í ár var markmiðið að safna fé til kaupa og þjálfunar á leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta.

Framlag Landsbankans gerir það meðal annars að verkjum að allt söfnunarfé frá almenningi og fyrirtækjum rennur beint til málefnisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Landssöfnun Lionshreyfingarinnar stóð yfir dagana 3.-6. apríl um land allt. Þetta er í níunda sinn sem Lionshreyfingin stendur fyrir landssöfnun með því að selja rauða fjöður.

Fyrsta landssöfnunin fór fram árið 1972 en þá rann allt söfnunarfé til stofnunar augnlækningadeildar Landakots. Í síðustu söfnun árið 2004 var safnað fyrir langveikum börnum undir kjörorðunum „Léttum þeim lífið“.

Landsbankinn var fjárgæsluaðili landssöfnunar Lionshreyfingarinnar í ár.