Talsverðar athugasemdir eru gerðar við ákveðin atriði frumvarps ríkisstjórnarinnar um hlutdeildarlán. Úrræðið byggir á breskri fyrirmynd en álitamál er hve vel það reyndist ytra.

„Þrátt fyrir að [breska úrræðið] hafi náð einu markmiði sínu, sem var að fjölga íbúðum og koma byggingariðnaðinum aftur á skrið eftir efnahagskreppuna 2008, þá eru stjórnvöld þessara landa sammála um að úrræðið sé of almennt og standi til boða fyrir of marga sem þurfa ekki á því að halda,“ segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins (SA). Líklegt sé að efni frumvarpsins muni hækka fasteignaverð enn frekar nema tekið sé á framboðsvanda markaðarins samhliða.

SA bendir einnig á að skilyrði frumvarpsins séu líkleg til að vinna gegn markmiðum frumvarpsins og að ávinningur þess renni til hóps sem þurfi hann ekki. Til að mynda er það skilyrði að hlutdeildarlánin séu nýtt til kaupa á nýjum íbúðum en þær eru nú þegar dýrari en þær sem eldri eru. Líklegt sé af þeim sökum að til verði sérstakur markaður með hlutdeildaríbúðir.

Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands (VÍ) er bent á það að þörfin á úrræðinu nú sé allt önnur en þegar tillögurnar voru lagðar fram samhliða kjarasamningum vorið 2019. Vaxtakjör séu nú allt önnur en áður og líklegt sé að skammtímaleiguíbúðir, sem áður voru leigðar á síðum á borð við Airbnb, muni rata inn á markaðinn.

„Þá vekur það athygli að endurgreiðslufjárhæð hlutdeildar láns nemur sama hlutfalli af söluverði íbúðarhúsnæðis við endurgreiðslu og upphafleg lánveiting nam af kaupverði. […] Til að setja þetta í samhengi hefur fasteignaverð hækkað að jafnaði um 8% á ári síðasta áratug. Velta má fyrir sér hvort það sé skynsamlegt fyrirkomulag,“ segir í umsögn VÍ.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að ef tekjur lántaka hækka yfir þau mörk sem lögin setja, og haldast yfir þeim í þrjú ár, sé stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem sér um umsýslu lánanna, heimilt að láta þau bera vexti. Bæði VR og ASÍ gagnrýna tekjuviðmiðið og vaxtaheimildina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .