Mögulega verður óheimilt að taka lán erlend lán nema maður hafi tekjur í erlendri mynt ef nýtt frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á lögum varðandi erlend lán verður að lögum. Þetta segir Ólafur Rúnar Ólafsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið .

Ólafur segir það vekja athygli að í lögunum sé gert ráð fyrir heimild en ekki skyldu til þess að setja reglur um upplýsingaskyldu lánveitanda, þar sem fullyrða megi að margir neytendur, sem tóku gengistryggð lán og erlend lán, hafi ekki áttað sig á þeirri áhættu sem því fylgdi.

„Annað sem vekur athygli við fyrsta lestur frumvarpsins er að opnað er á heimildir til þess að flokka lántaka í sundur hvað varðar möguleika þeirra á lánsfjármögnun, eftir því hvort þeir hafi tekjur í erlendum gjaldmiðlum eða ekki. Það vill segja að aðili sem starfar fyrst og fremst á innanlandsmarkaði, og hefur ekki erlendar tekjur, hefur ekki sömu möguleika, eða jafnræði, að lánsfjármagna sig með erlendu láni, eins og aðili sem hefur tekjur í erlendri mynt, verði heimildarákvæðum þessum beitt,“ segir Ólafur Rúnar.

Dregur hann í efa að slík aðgreining samræmist reglum um frjálst flæði fjármagns.