Tugir stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði undirbúa nú málsókn á hendur Íslandsbanka vegna lána sem Glitnir veitti fyrir stofnfjáraukningu í sjóðnum seinni part ársins 2007. Íslandsbanki yfirtók lán Glitnis eftir að bankinn féll og því snýr undirbúningur málsóknarinnar að Íslandsbanka.

Meðal þeirra sem Glitnir lánaði til voru ófjárráða einstaklingar, þ.e. börn. Það var gert eftir að foreldrar barna höfðu leitað samþykki fyrir því hjá sýslumanni að skrá börn fyrir nýju stofnfé.

Eyrún Guðmundsdóttir hjá sýslumanninum í Reykjavík staðfestir að nokkrar beiðnir hafi borist sýslumanninum vegna barna í tengslum við stofnfjáraukninguna. Hún segir að þeim hafi öllum verið hafnað.

Um nokkur mál er að ræða, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, þar sem lánveiting til barna var heimiluð. Samþykkt var í nokkur skipti að börn gætu verið eigendur stofnfjár, m.a. af sýslumannsembættinu í Hafnarfirði, og var lánað til barnanna á grundvelli þess samþykkis.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .