Lárus Elíasson er hættur sem framkvæmdastjóri hjá Enex og Þór Gíslason hefur tekið við starfi hans.

Lárus segir að deilur hafi verið um áherslur og hvaða stefnu fyrirtækið ætti að taka.

,,Ég reyndi ásamt nokkrum starfsmönnum, fjárfestum og með fulltingi Orkuveitunnar að kaupa Enex en það gekk ekki. Eftir það var í raun sjálfhætt. Ágreiningurinn sem um ræðir snýst m.a. um þá grunnhugmynd sem rekstur Geysir Green byggist á og þar skildi leiðir.”

Geysir Green hefur varpað þeirri hugmynd fram að Enex sameinist annaðhvort Geysi eða Exorku. Aðspurður kvaðst Lárus hvorki vita hvernig þau mál stæðu í dag né telja rétt að tjá sig um þau. Lárus segir ekki enn ljóst hvað hann taki sér fyrir hendur næst.

,,Það er mikil hreyfing á markaðnum um þessar mundir og ekkert komið á hreint með það enn.”