Laun Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, hækkuðu nokkuð á milli ára samkvæmt ársreikningi félagsins. Þannig voru laun hans 349.000 evrur árið 2016 en 421.000 evrur árið 2017 og hækkunin í evrum talið því tæp 21%.

Hækkunin í krónum er hins vegar öllu minni eða rétt tæplega 9% ef miðað er við árlegt meðalgengi evru hvors árs fyrir sig en gengi krónunnar styrktist nokkuð á móti evru á milli ára. Þannig voru laun Vilhjálms um 46,6 milljónir árið 2016 miðað við gengi þess árs og 50,7 milljónir árið 2017 miðað við gengi þess árs.

Félagið þurfti að ráðast í nokkrar hagræðingaraðgerðir á árinu sem fólust meðal annars í því að láta af botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi. Viðskiptablaðið fjallaði um það að greiningaraðilar byggjust við því að aðgerðirnar skiluðu sér í góðri afkomu en hagnaður félagsins dróst hins vegar saman á milli ára og hlutabréf í HB Granda hafa lækkað um 5,16% frá því að markaðir opnuðu.