Laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað um 23% á árunum 2005-2007 sem er nokkuð umfram kjarasamninga á tímabilinu, að því er fram kemur í tilkynningu vegna launakönnunar ParX viðskiptaráðgjafar IBM.

Þá hafa laun opinberra starfsmanna hækkað um 19% á sama tíma samkvæmt Hagstofunni.

Í tilkynningunni kemur fram að meðal ástæðna fyrir hækkunum á vinnumarkaði síðustu ár er lítið atvinnuleysi og aukin starfsmannavelta. Nú bendir hins vegar allt til þess að launaskrið síðustu ára sé liðið og að launahækkanir verði minni en áður.

Þá segir að í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði frá 2004 var gert ráð fyrir að laun hækkuðu á bilinu 16-20%  fram til ársins 2008. Þá gerðu helstu kjarasamningar ríkisins, samningar við grunnskólakennara, félag leikskólakennara, SFR, 24 félög innan BHM og framhaldsskólakennara, sem undirritaðir voru 2004 ráð fyrir meðaltalshækkun upp á 21%.

„Þróunin hefur hins vegar orðið á  þann veg að laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað umfram það," segir Jón Emil Sigurgeirsson umsjónamaður launakannana hjá ParX í tilkynningunni.

Hann segir að á síðasta ári hafi laun opinberra starfsmanna hækkað um 7,4% samkvæmt gögnum Hagstofunnar og laun á almennum markaði, samkvæmt könnun ParX, hækkað um 10,8%.

„Hækkanir voru mestar hjá sérfræðingum og minnstar hjá sölu- og afgreiðslufólki. Fyrirtæki hafa því hækkað laun starfsmanna umfram það sem samið var um. Ástæður hækkana eru fjölbreyttar og ekki er hægt að alhæfa um hvaða veldur. Hins vegar teljum við líklegt að lítið atvinnuleysi og aukin starfsmannavelta séu þættir sem hafa áhrif á launahækkanir. Við höfum t.d. séð að starfsmannavelta á meðal sérfræðinga hefur aukist undanfarin ár og það er líklegt til að hafa áhrif á launaþróun þessa starfshóps.“

Þá kemur fram í tilkynningunni að miðað við kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins (SA) sem undirritaðir voru í febrúar á þessu ári var gert ráð fyrir að laun hækkuðu um 5,5% á þessu ári.

Kjarasamningar flestra stéttarfélaga starfamanna ríkisins og sveitarfélaga gerðu ráð fyrir 2%-3% hækkun launataxta frá 1. janúar 2008 á þessu ári. Samningar aðildarfélaga BSRB og BHM á þessu ári fólu hins vegar í sér hækkun launataxta um 20.300 kr. auk annarra kostnaðarliða.