Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir í Morgunblaðinu í dag að 6. til 10. maí hafi verið gerð skoðanakönnun á vinnustöðum á meðal félagsmanna Einingar-Iðju til að fá upplýsingar um vilja félaganna um hvaða áherslur verði lagðar þegar smíði kröfugerðar hefst fyrir kjarasamninga í haust. Þátttaka hafi verið góð og 1.330 svör borist.

Spurður um áherslur félagsmanna í kjaramálum segir Björn félagið eiga eftir að vinna úr niðurstöðunum en ljóst sé af umræðunni innan hreyfingarinnar að fólk vilji fyrst og fremst fá stöðugleika á nýjan leik. „Menn ræða það mikið og að fá vaxandi kaupmátt,“ er haft eftir Birni í Morgunblaðinu. Hann er jafnframt formaður Starfsgreinasambandsins og segir að fleiri stéttarfélög hafi ráðist í viðhorfskannanir meðal félagsmanna um áherslur í komandi kjarasamningum.