Ríkisstjórnin hyggst leggja áherslu á að greina möguleika á sölu eigna til að lækka skuldir og lágmarka fjármagnskostnað ríkissjóðs. Í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 segir að „umtalsverðar eignir“ séu á efnahagsreikningi ríkissjóðs sem tækifæri séu til að hagnýta „mun betur“.

Í forsendum áætlunarinnar er gert ráð fyrir eignasölu upp á samtals um 100 milljarða í ár og á næsta ári en bróðurhlutinn af þeirri fjárhæð má rekja til áformaðrar sölu á eftirstandandi 42,5% hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka. Þá er gert ráð fyrir 25 milljarða króna eignasölu árið 2028 umfram forsendur gildandi áætlunar.

„Tækifæri eru til að stýra efnahagsreikningi ríkisins með enn markvissari hætti og ná fram meiri arðsemi, auknum arðgreiðslum og öðrum ábata af eignum ríkisins,“ segir í fjármálaáætlun.

„Þörf er á að ráðast í sölu ótekjuberandi eigna eins fljótt og hægt er og kanna möguleika á sameiningu félaga eða sölu þeirra í meira mæli en verið hefur. Með slíkum aðgerðum verður hægt að lágmarka fjármagnskostnað ríkissjóðs að teknu tilliti til áhættu, innleysa verðmæti sem liggja á efnahagsreikningnum og þar með draga úr skuldasöfnun.“

Í rammagrun um „virkjun efnahags ríkisins til lækkun á skuldum ríkisins“ segir að til að styðja við lækkun á skuldastöðu ríkissjóðs og meira svigrúm til samfélagslega arðbærra fjárfestinga verði lögð aukin áhersla á að hámarka hagrænan og samfélagslegan ábata af eignum ríkisins.

Frekari greining verði gerð á félaga- og eignasafni ríkisins m.t.t. þess hvaða eignir teljast mikilvægar út frá almannahagsmunum og sviðsmyndir mótaðar um sölu og ráðstöfun slíkra eigna. Horft verði til tilgangs og ábata af eignarhaldinu og arðsemis­sjónarmiða.

Mynd tekin úr fjármálaáætlun.

Yfir þúsund milljarðar í eigið fé og stórt fasteignasafn

Ríkissjóður er eigandi að 47 félögum sem höfðu samtals um 1.000 milljarða króna í eigin fé í árslok 2022. Áformað er að selja eftirstandandi hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka á þessu ári og því næsta „að því gefnu að Alþingi samþykki framlagt frumvarp um ráðstöfun eignarhlutanna og ef markaðsaðstæður leyfa“.

Þá er ríkissjóður eigandi að um 900 fasteignum með heildarfermetrafjölda upp á 950.000 fermetra og ríflega 400 jörðum en bókfært virði þessara eigna er um 312 milljarðar króna. Bent er á að til viðbótar eigi ríkissjóður talsvert af lóðum, spildum og auðlindum víðs vegar um landið.

„Í eignasafninu felast margvísleg tækifæri til að innleysa verðmæti, t.a.m. með sölu eigna eða þróun þeirra sem eykur virði eignanna.“

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra sagði á fundi í morgun að sérstök áhersla verði lögð á þróunarreiti, það sé sennilega verðmætasti hluta af jörðum og fasteignasafninu. Hann nefndi í þessu samhengi Keldnalandið, Borgartúnsreitinn þar sem Vegagerðin var áður, Laugarnesreitinn og Seljaveg.

Fjallað um aðkomu einkaaðila að Isavia

Í kafla í fjármálaáætluninni um umbætur í starfsemi hins opinbera er minnst sérstaklega á að einkaaðilar víða í Evrópu komi að rekstri flugvalla „líkt og Isavia, þar sem þjóðhagslegir mikilvægir innviðir líkt og flugbrautir eru undanskildir“.

Enn fremur megi horfa til sameininga ríkisfélaga til að hagræða og auka arðsemi þeirra. „Í því samhengi hefur m.a. verið horft til Orkubús Vestfjarða og Rarik.“