*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Erlent 28. maí 2019 17:03

Leiðtogar ESB í hár saman um forseta

Macron og Merkel deila um hvort forseti framkvæmdastjórnar ESB eigi að vera úr hópi oddvita flokkabandalaganna.

Ritstjórn
Deilt er um hvernig og hver eigi að veljast sem eftirmaður Jean-Claude Junkcer forseta framvkæmdastjórnar ESB í kjölfar kosninga til Evrópuþingsins.

Leiðtogar þingflokka á þingi Evrópusambandsins, hafa varað leiðtoga ESB ríkja frá því að reyna að velja nýjan forseta framkvæmdastjórnar sambandsins sjálfir á ráðstefnu leiðtogaráðs sambandsins sem nú er að hefjast. Verður nýr forseti valinn í kjölfar nýafstaðinna kosninga í öllum aðildarríkjum sambandsins í stað Jean-Claude Juncker.

Vilja þingflokkar kristilegra demókrata, sósíaldemókrata, græninga og róttækra vinstrimanna að forseti framkvæmdastjórnarinnar verði valinn úr hópi yfirlýstra oddvita þingflokkanna sem valdir voru fyrir kosningarnar. Styður Angela Merkel kanslari Þýskalands einnig að forsetinn verði valinn úr hópi oddvitanna, en Manfred Weber, þingmaður CDU sem tilheyrir Evrópska þjóðarflokknum, Evrópuflokki kristilegra demókrata, sem heldur stöðu sinni sem stærsti flokkurinn, nýtur stuðnings hennar. Er yfirlýsingin sögð styrkja tilkall hans til embættisins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um, misstu þó kristilegir demókratar og sósíaldemókratar, sem löngum hafa haft saman meirihluta þingmanna á Evrópuþinginu, meirihlutann, þó með auknu fylgi græningja og frjálslyndra flokka sé áfram meirihluti fyrir frekari samþættingu sambandsins.

Þrátt fyrir það juku, annars vegar þingflokkar íhaldssamra umbótaflokka sem hafa efasemdir um frekari samþættingu bandalagsins, sem og nýtt flokkabandalag þjóðernissinnaðra flokka, fylgi sitt og þingmannafjölda, meðan þriðja flokkabandalag gagnrýnenda sambandsins, sem Brexit flokkur Nigel Farage tilheyrir, inniheldur nú einungis þrjá flokka.

Macron vill fá að ráða

Hins vegar vilja leiðtogar sumra aðildarríkja, með Emmanuel Macron, forseta Frakklands í broddi fylkingar, að forsetinn verði áfram valinn í samningum leiðtoganna á milli.  Flokkabandalag flokks forsetans, Lýðveldisfylkingarinnar, Bandalag frjálslyndra lýðræðissinna fyrir Evrópu, styður ekki að forsetinn verði valinn úr hópi oddvitanna.

Einn helsti talsmaður Macron, Pascal Canfin segir hins vegar fyrrnefndan oddvita Evrópska þjóðarflokksins, EPP, óhæfan til starfans því flokkabandalagið hafi tapað miklu fylgi frá Evrópukosningunum 2014.

Samkvæmt ESB sáttmálanum er gert ráð fyrir því að þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir aðildarríkjanna velji forseta framkvæmdastjórnarinnar, en þó þannig að hann þarf að hljóta samþykki þingsins. Deilurnar endurspegla valdabaráttu milli mismunandi afla á þingi og stjórnkerfi ESB, en sósíaldemókratar vilja til að mynda að þeirra eigin oddviti, Frans Timmerman, hljóti forsetaembættið.

Þrátt fyrir viðvörun leiðtoga flokkabandalaganna á Evrópuþinginu, inniheldur yfirlýsingin ekki hótun um beitingu neitunarvalds ef leiðtogar þjóðríkjanna velja forsetaefni sem ekki tilheyrir oddvitum flokkabandalaganna. Guy Verhofstead, leiðtogi flokkabandalags frjálslyndra flokka, segir hins vegar að val forsetans úr hópi oddvita sé gallað ef ekki er til staðar listakjör þvert á landamæri.

„EPP er að ýta fast á að valið sé eftir oddvitakerfi, en því miður drápu þeir lögmæti þess þegar þeir kusu gegn listakosningum þvert á þjóðríki. Þeir eru að reyna að komast til valda á baki hests sem þeir slátruðu sjálfir,“ segir Verhofstadt samkvæmt frétt FT um málið.