Í Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans sem kom út í morgun kemur fram að leigumarkaðurinn á landinu hafi nær tvöfaldast frá árinu 1996.

Leigufélög og aðrir lögaðilar áttu samtals um 10% íbúðarhúsnæðis árið 1996 en í dag hefur hlutfallið næstum tvöfaldast. Hæst er hlutdeild leiguhúsnæðis miðsvæðis í Rekjavík.

Þá segir að atvinnuleigusalar hafi á tímabili greitt hærra fermetraverð fyrir íbúðir en einstaklingar, aðallega miðsvæðis í Reykjavík. Á sama tímabili sjáist merki um að lögaðilar hafi almennt keypt eignir af meiri gæðum en einstaklingar, einna helst á því svæði.

Ekki sjáist því skýr merki um meiri áhættutöku hjá lögaðilum en einstaklingum, að því er þetta varðar. Hins vegar megi vera ljóst að verðmat þeirra getur verið ólíkt og greiðsluvilji annar en einstaklinga á tímum þrenginga og raunverðslækkana. Með stækkandi leigumarkaði þurfi því áfram að fylgjast vel með þróun á eignarhaldi og fjármögnun íbúðarhúsnæðis.