Skiptastjórar Grettis fjárfestingarfélags og Grettis eignarhaldsfélags hafa brugðið á það ráð að senda fyrirspurn til Verðbréfaskráningar Íslands, sem er með rafrænt skráð hlutabréf og skuldabréf, til að fá sem réttastar upplýsingar um eignir félagsins.

Sömuleiðis hyggjast þeir senda öllum þeim hlutafélögum, þar sem Grettir var skráður eignaraðili, óskir um að fá upplýsingar um eignarhlut félagsins.

Að sögn Elvars Arnars Unnsteinssonar, annars tveggja skiptastjóra, er þetta nauðsynlegt til þess að fá réttar upplýsingar um eignir búsins. Hann sagðist telja þetta að þetta sé vandamál sem virðist sprottið af því að með rafrænni skráningu hafi orðið lausung í meðferð og vörslu pappírslegra skjala hjá viðskiptalífinu.

Elvar Örn sagði að fyrir utan ársreikning félagsins hefðu þeir næsta litlar upplýsingar í höndunum varðandi eignir þess og taldi hann að þetta væri vandamál sem gæti hlotist af rafrænni skráningu. Sömuleiðis hefði reynst nauðsynlegt að uppfæra bókhald félagsins og sagði Elvar að það gæti tekið nokkurn tíma.

Grettisfélögin voru úrskurðuð gjaldþrota 7. maí 2009 að ósk stjórna félaganna en stærsti eigandi félagsins voru félög tengd Björgólfi Guðmundssyni.