Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því í október 2008. Þá var fjármálakerfi heimsins, með stærstu bankana á Wall Street í New York sem miðpunkt, á barmi hruns eftir fall Lehman Brothers 15. september. Allsherjarvantraust myndaðist á millibankamarkaði og seðlabankar og ríkisstjórnir gripu í taumana. Almenningur um allan heim, ekki síst í Evrópu og Bandaríkjunum, situr uppi með vandamálin. Háa skatta, mikið atvinnuleysi og gríðarlegar opinberar skuldir. Ástæðurnar fyrir þessum hremmingum liggja að miklu leyti fyrir og heildarmyndin verður sífellt skýrari.

Myndin að skýrast

Stórblaðið The New York Times greindi frá nýju púsli í þessari sögulegu mynd í stórri rannsóknarúttekt 14. apríl sl. Þar voru til umfjöllunar ýmis mál er tengdust rannsóknum á stærstu bönkunum á Wall Street og þá ekki síst út frá þeirri staðreynd að enginn stjórnandi eða millistjórnandi í neinum af stóru bönkunum sé til rannsóknar eða hafi verið dæmdur. Þó hefur fjármálaeftirlitið í landinu tilkynnt um tugi brota, samið hefur verið við mörg fyrirtæki vegna lögbrota, þar á meðal Goldman Sachs og AIG, og enn fleiri blasa við. Þá ekki síst sala á innistæðulausum skuldabréfavafningum til fjárfesta um allan heim, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja, sem reyndust ekki vera nein verðmæti þegar á hólminn var komið.

Leynifundur

Í blaðinu kom fram að Timothy Geithner, núverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna og þáverandi forystumaður seðlabankans í New York, hafi fundað með Andrew M. Cuomo, saksóknara í New York, um miðjan október 2008 á leynilegum fundi. Þar voru rædd ýmis viðkvæm málefni er tengdust lánshæfismatsfyrirtækjum, stóru bönkunum á Wall Street og tryggingarisanum AIG. Cuomo og félagar hans höfðu haft fyrirtækin til rannsóknar í meira en ár vegna gruns um markaðsmisnotkun og raunar ýmislegt fleira. Samkvæmt frásögn New York Times kom Geithner þeim skilaboðum áleiðis til þeirra sem fundinn sátu, sem voru auk hans og Cuomo nokkrir embættismenn, að það gæti verið hættulegt að fara gegn þessum fyrirtækjum vegna óstöðugleikans sem var á mörkuðum. Það gæti haft afgerandi áhrif á fjármálamarkað heimsins ef gripið yrði til aðgerða gegn fyrrnefndum fyrirtækjum, þrátt fyrir að lögbrotin væru almennt álitin augljós. Síðan hafa liðið meira en tvö og hálft ár án þess að gripið hafi verið til aðgerða gegn stærstu fyrirtækjunum á Wall Street.

Ekkert gert

Engar ákærur hafa verið gefnar út á hendur bankastjórum eða millistjórnendum í bönkunum frá allsherjarhruninu haustið 2008. Bandaríska alríkislögreglan FBI og bandaríska fjármálaeftirlitið hafa þó ekki látið bankana alveg afskiptalausa. Goldman Sachs hefur til að mynda þegar samið um að greiða tæplega milljarð dollara, um 120 milljarða króna, vegna brota á lögum. Þar vega þyngst markaðsmisnotkunarbrot er dótturfélög bankans voru notuð til þess að veðja gegn því að lántakendur gætu greitt skuldir sínar til baka. Í samningum bankans við bandaríska fjámálaeftirlitið voru einstaka starfsmenn bankans fríaðir frá sakamálarannsókn. Það á raunar einnig við um aðra banka og tryggingarisann AIG. Brot tryggingafélagsins voru samkvæmt frásögn New York Times talin „stórfelld“ og sneru nær öll að fjársvikum og markaðsmisnotkun.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.