Bandaríska fjölmiðlafyrirtækið Liberty Media hefur staðfest að það sé að kaupa viðskiptaréttindi Formúlu 1 fyrir 4,4 milljarða dollara eða því sem samsvarar 500 milljarða króna. Frá þessu er sagt í frétt BBC.

Liberty Media er umsvifamikið í skemmtana- og íþróttabransanum og á meðal annars hafnaboltaliðið Atlanta Braves. Fyrirtækið er í eigu John Malone.

Bernie Ecclestone heldur sæti sínu sem forstjóri formúlunnar, en Chase Carey, sem situr í stjórn 21st Century Fox, verður nýr stjórnarformaður.

Liberty Media kaupir hlut sinn frá fyrirtækinu CVC Capital. Að mati sérfræðings BBC, Dan Roan, þá er þetta einn af stærstu viðskiptasamningum íþróttasögunnar og jafnframt ein af mikilvægustu stundum í sögu Formúlu 1.