Halli hefur verið á vöruskiptum við útlönd síðan í febrúar á þessu ári. Hefur hallinn frekar færst í aukanna undanfarið og mældist hann 6,4 ma.kr. í júlí. Á miðvikudaginn mun Hagstofan birta tölur um vöruskiptajöfnuðinn í ágúst. Reikna má með að ágústmánuður hafi verið hallamánuður líkt og mánuðirnir þar á undan.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er því spáð að hallinn hafi verið á bilinu 6-8 ma.kr. en í ágúst í fyrra var vöruskiptahallinn 0,9 ma.kr. Verði niðurstaðan í miðgildi þeirrar spá er vöruskiptahallinn það sem af er ári kominn upp í 27,2 ma.kr. og er það mikil aukning frá því í fyrra þegar hann var 6,7 ma.kr. á sama tímabili. Ytra ójafnvægi hagkerfisins fer því hratt vaxandi um þessar mundir. Innflutningur neyslu- og fjárfestingavara hefur vaxið hratt að undanförnu samhliða vaxandi þjóðarútgjöldum. Þannig hefur vöxtur innflutnings verið það mikill að hann hefur yfirunnið vöxt útflutnings sem þó hefur verið nokkur á tímabilinu.