Fjármálaráðherra birti í dag skýrslu um „hlut fyrirtækja í hagnaðardrifinni verðbólgu“ sem unnin var að beiðni níu þingmanna Pírata og Flokks fólksins. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að fáar vísbendingar séu um að álagning fyrirtækja hafi aukist á undanförnum misserum.

Einfaldar athuganir á hlutdeild launa og rekstrarafgangs fyrirtækja í þróun á verðvísitölu landsframleiðslunnar bendi ekki til þess að álagning fyrirtækja hafi drifið verðbólgu síðustu þriggja ára.

Þessi niðurstaða sé í samræmi við ítarlegri greiningum Seðlabankans, sem greint var m.a. frá í Peningamálum í nóvember sl., sem bendi til þess að álagning innlendra fyrirtækja hafi ekki dreifið áfram verðbólgu á þessu tímabili.

„Þrátt fyrir að hagnaður fyrirtækja hafi í mörgum tilfellum aukist eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar er varasamt að draga ályktanir um framlag hans til verðbólgunnar,“ segir í skýrslunni.

„Jafnvel einfaldar nálganir með viðmiðum úr þjóðhagsreikningum benda ekki til þess að aukinn hagnaður almennra atvinnufyrirtækja, til aðgreiningar frá málm- og orkufyrirtækjum og öðrum rekstrarafgangi sem m.a. má rekja til félagasamtaka, heimila, hins opinbera og fjármálastofnana, skýri markverðan hluta þeirrar verðbólgu sem hófst árið 2021.“

Mynd tekin úr skýrslunni
Mynd tekin úr skýrslunni

Yfirstandandi verðbólguskeið er rakið rekja bæði til framboðsskella og sterkrar eftirspurnar í kjölfar tímabils þar sem saman fór lágt vaxtastig og mikill hallarekstur hins opinbera‏. Hér á landi hækkuðu verðbólguvæntingar einnig markvert, sem hafi leitt til þrálátari verðbólgu hér en víða annars staðar.

Óskað var eftir því að í skýrslunni komi fram um hversu hagnaðardrifin verðbólga síðustu tveggja ára er og hver hlutur stórra og millistórra fyrirtækja, sem hafa veltu yfir 500 milljónir króna og hafa skilað ársreikningum til Skattsins, er í þeirri verðbólgu. Við vinnslu skýrslunnar óskaði ráðuneytið eftir sérkeyrslu gagna frá Hagstofunni um afkomu fyrirtækja auk þess sem byggt var á umfjöllun um hagnað fyrirtækja og aukningu verðbólgu í nóvemberhefti Peningamála Seðlabanka Íslands.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að þegar rýnt er í aðgengileg gögn virðist álagning hafa staðið í stað, eða a.m.k. ekki hækkað. Lítill grundvöllur sé til þess að telja álagningu mikilvægan drifkraft verðbólgu síðustu ára.