Rafbílaframleiðsla hefur heldur betur tekið kipp á síðustu tíu árum. Fyrirtæki á borð við Nissan, Chevrolet og Toyota hafa gert rafbifreiðar tiltölulega vinsælar - til að mynda má nefna Leaf, Volt og Prius bíla þeirra - að ógleymdu Tesla Motors, fyrirtæki Elon Musk.

Með vinsældum rafbíla jukust vinsældir málmsins litíns í beinu hlutfalli. Litín er nefnilega notað í endurhlaðanlegar rafhlöður - og rafbílaframleiðsla krefst mikils magns af þessum alkalímálmi. Eina vandamálið er að tiltölulega lítið er til af þessum málmi, sem keyrir upp verðið með aukinni eftirspurn fyrir rafbílum. Verðið hefur hækkað um 47% á einu ári.

Meðan hrávöruverð kola og járns hefur farið lækkandi hefur litínverð farið hækkandi - um 250% í Kína, til dæmis - og gengi hlutabréfa litínnámufyrirtækja með því.

Tesla Motors vinnur nú að byggingu „Gígaverksmiðju” í Nevada. Þar mun fyrirtækið vinna og framleiða rafhlöður í vörur sínar, hvort sem er heimilisbatterýin sem það býður upp á eða í Model S, X og 3 bifreiðar sínar. Verksmiðja þessi mun kosta Elon Musk og félaga ófáan skildinginn, ef litínverð heldur áfram að hækka eins og það hefur.