Liv Berþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, hlaut Íslensku markaðsverðlaunin sem Markaðsmaður ársins og Marel sem Markaðsfyrirtæki ársins hjá ÍMARK á Hilton Reykjavík Nordica í gær. Það var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem afhenti verðlaunin.

Ræðumaður dagsins var Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri Sölu- og Markaðssviðs Icelandair en Icelandair var markaðsfyrirtæki síðasta árs. Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Nóa Síríus og formaður dómnefndar á Markaðsmanni ársins, og Þórhallur Guðlaugsson, forstöðumaður BS í markaðsfræði og alþjóðaviðskipta við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður dómnefndar á Markaðsfyrirtæki ársins, héldu erindi í tilefni dagsins.

Fram kemur á vef ÍMARK, sem hefur afhent Íslensku markaðsverðlaunin undanfarin 22 ár, að eins og á fyrri árum hafi aðsókn á viðburðinn í gær verið mjög góð enda veki afhendingin ávallt athygli í íslensku viðskiptalífi.

Auk Marel voru Mjólkursamsalan og Ölgerðin tilnefnd til Íslensku Markaðsverðlauna. Þessi fyrirtæki hafa sýnt frábæran árangur hvert á sínu sviði og mjög faglegt markaðsstarf.

Nova var þá þriðja fyrirtækið sem Liv starfaði hjá sem hefur verið valið Markaðsfyrirtæki ársins.

Nánar um markaðsverðlaunin