Hlutabréf lækkuðu nú annan daginn í röð í Bandaríkjunum eftir að væntingavísitala féll og hefur ekki verið lægri í 16 ár. Flestar vísitölur sýndu rauðar tölur í allan dag fyrir utan S&P 500 sem hækkaði undir lok dags.

Nasdaq lækkaði um 0,46%, Dow Jones lækkaði um 0,23% en S&P 500 vísitalan hækkaði hins vegar örlítið eða um 0,08%.

Smásölugeirinn lækkaði um 1% sem heild í dag. Það kom í kjölfar þess að væntingavísitölur lækkuðu í dag og hafa ekki mælst lægri síðan í febrúar 1992. Væntingavísitölur mældust 69,6% nú í febrúar en voru 78,4% í janúar síðastliðnum.

Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði á ráðstefnu í dag að efnahagskerfi Bandaríkjanna væri á brúninni og stutt væri í niðursveiflu. Ben Bernanke, núverandi seðlabankastjóri sagði í gær að ekki væri loku fyrir það skotið að hætta væri á frekari niðursveiflu.

Bankar og fjármálafyrirtæki héldu einnig áfram að lækka í dag. Citigroup, American Express og Bank of America voru þar á meðal.

Þá lækkuðu lánafyrirtækin Ambac um 4,1% og MBIA um 4,9%. Bæði fyrirtækin eru nú í endurmati á lánshæfismati síunu og eru að sögn Bloomberg fréttaveitunnar að ströggla fyrir því að halda AAA einkunn sinni.