Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum upp úr hádegi að lagt yrði fram lagafrumvarpi á Alþingi til að stöðva verkfallsaðgerðir flugmanna. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins , en heimildir VB.is herma hið sama.

Ríkisstjórnin kom saman á fund í stjórnarráðshúsinu klukkan eitt. Fundurinn var boðaður með skömmum fyrirvara eftir að Félag íslenskra atvinnuflugmanna sleit samningaviðræðum við Icelandair.

Eldhúsdagsumræður eru áformaðar í kvöld og því liggur ekki ljóst fyrir hvenær Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mun mæla fyrir lagafrumvarpi vegna málsins. Þó liggur fyrir að það þarf að vera búið að samþykkja lögin fyrir klukkan sex á föstudagsmorgun en þá er áformað að tólf klukkustunda verkfall hefjist.