Magnús Orri Schram hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingarinnar hefur enn ekki ákveðið hvort hann býður sig fram að nýju en Helgi Hjörvar hefur aftur á móti gefið kost á sér. Samfylkingin hefur átt erfitt uppdráttar og mælst með lítið fylgi í skoðanakönnunum undanfarin misseri. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar samþykkti í vikunni einróma ályktun, þar sem lagt er til að kosið verði um alla forystu flokksins á landsfundi Samfylkingarinnar helgina 3. og 4. júní.

Magnús, sem er 43 ára, sat á þingi fyrir Samfylkinguna á síðasta kjörtímabili en undanfarin ár hefur hann starfað sem ráðgjafi í stefnumótun og stjórnun hjá Capacent. Auk þess hefur hann starfaði við sölu og markaðsmál hjá Bláa Lóninu og kennt frumkvöðlafræði við Háskóla Íslands. Magnús hefur lokið BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

„Þetta framboð sprettur upp meðal almennra félagsmanna í Samfylkingunni," segir Magnús Orri í fréttatilkynningu. „Fólk vill sjá breytingar í starfi og forystu flokksins. Fjöldi fólks hefur hvatt mig til þátttöku og er tilbúið í verkefnið með mér“

Helstu stefnumál Magnúsar Orra eru:

  1. Öll opinber heilbrigðisþjónusta á að vera ókeypis. Það er dýrt að veikjast og við hvorki eigum né þurfum að láta veikt fólk borga. Við hin eigum að hjálpa til. Eflum heilsugæsluna, byggjum nýjan spítala og aukum aðstoð við aldraða og öryrkja.
  2. Jöfnum byrðarnar. Hækkum skatta á ríkasta prósentið og lækkum skatta á venjulegt fólk. Ríkasta prósentið á miklar eignir og t.d. helming allra fjármagnstekna og auður þess hefur vaxið mjög mikið. Þetta fólk hefur efni á að leggja mun meira til samfélagsins. Ójöfnuður er ein helsta ógn okkar tíma, og það er mikilvægt að halda í samfélagssáttmálann.
  3. Auka þarf stuðning við unga fólkið á húsnæðismarkaði. Skoða þarf hvort fyrstu kaupendur fái 3-5 milljón króna vaxtalausa aðstoð við íbúðarkaup. Ríkið eignast hlutdeild í íbúðinni sem afhendist aftur til baka þegar íbúðin er seld. Hjálpa verður ungu fólki að taka fyrsta skrefið enda eru okurvextir íslensku krónunnar ekki boðlegir. Samtímis þarf að byggja upp öflugan leigumarkað enda mikilvægt að leigjendur geti búið við öryggi og sanngjarna leigu.
  4. Útboð á nýtingu auðlinda. Þjóðin á rétt á hlutdeild í verðmætum hafsins. Hluti kvótans á að fara í útboð á hverju ári. Þannig fær þjóðin verulegan hluta af arði auðlindar og markaðurinn leiðir fram eðlilegt auðlindagjald. Auðlindaarður renni að hluta aftur til byggðanna til að fjármagna grunngerð, til dæmis veg- og nettengingar og þjónustu. Þannig verður loksins alvöru byggðastefna á Íslandi.
  5. Frá Alþingi til almennings. Við viljum opið lýðræði og aukna þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Þjóðaratkvæðagreiðslur um stóru málin - t.d. ESB og auðlindir. Höldum áfram að skrifa stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs. Almenningur þarf að skrifa þetta plagg - ekki stjórnmálamenn. 15% flokksmanna Samfylkingar geti krafist atkvæðagreiðslu um afstöðu flokksins til mála sem eru fyrir þinginu. Ráðherrar eiga að víkja af þingi.
  6. Aðgerða er löngu þörf í ferðaþjónustu. Nú þarf uppbyggingu innviða og betri stýringu svo við glötum ekki orðspori og sérstöðu. Tekjur af ferðamönnum þurfa að verða eftir í heimabyggð. Náttúran er auðlind sem ber að umgangast af virðingu og umhverfismál eru atvinnumál. Við þurfum markvissa sókn í náttúruvernd til að verjast ágangi og tryggja sjálfbærni. Þjóðgarð á að reisa á miðhálendinu og millilandaflug á að taka upp frá Akureyri og Egilsstöðum.