Kostnaður íslenska ríkisins vegna dómsmáls Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, gegn Seðlabankanum nam 4.060.825 krónum, að því er kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar.

Í svarinu segir jafnframt að báðir málsaðilar, þ.e. seðlabankastjóri og Seðlabanki Íslands, hafi gert kröfu um að hinn greiddi málskostnað vegna dómsins sem kveðinn var upp af Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október 2012. Í dómsorði var kveðið á um að málskostnaður félli niður. Það þýðir að málsaðilar bera hvor um sig þann kostnað sem þeir hafa stofnað til sjálfir, svo sem lögmannskostnað.

Ekki er þó um endanlegan kostnað að ræða, því Már áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, sem hefur tekið málið til meðferðar.

Málið snerist um launakjör seðlabankastjóra. Már taldi að ákvörðun, sem tekin var í mars 2009, um að skerða laun hans hafi verið ólögmæt. Þegar Már var ráðinn til starfa í ágúst 2009 var samið um 1.575.000 króna laun á mánuði. Eftir skerðinguna voru laun hans 1.262.000 krónur á mánuði, eða rúmum 300.000 krónum lægri en upphaflega var um samið.