Með hliðsjón af samtvinnun annars vegar Og fjarskipta og fjölmiðla Norðurljósa og hins vegar Landsímans og Skjás eins, í tvær öflugar fjarskipta- og fjölmiðlasamsteypur, er á málþinginu ætlunin að fjalla um hugsanleg áhrif slíkrar samrunaþróunar á fjölmiðlun á Íslandi almennt.

Málþingið verður haldið laugardaginn 20. nóvember næstkomandi, milli kl. 10 og 12 fyrir hádegi og er það á vegum Fjölmiðlamiðstöðvar ReykjavíkurAkademíunnar (RA) um Fjarskipta- og fjölmiðlasamsteypur. Málþingið verður haldið í húsnæði RA við Hringbraut 121 (JL-húsinu).

Framsögumenn á fundinum verða Elfa Ýr Gylfadóttir, fjölmiðla- og fjarskiptafræðingur, Guðmundur Heiðar Frímannsson heimspekingur og Þorbjörn Broddason, félags- og fjölmiðlafræðingur. Að loknum framsöguerindum þeirra, sem hvert um sig taka um 20 mínútur, setjast þau við pallborð ásamt Birgi Guðmundssyni, aðjúnkt og ritstjóra Blaðamannsins og Loga Bergmann Eiðssyni, fréttamanni RÚV. Opnað verður fyrir spurningar og athugasemdir úr sal. Í boði verða kaffi og kleinur gegn vægu gjaldi, en aðgangur er ókeypis.