„Það gengur ekki upp fyrir stórmarkaði erlendis að fá ekki daglega íslenskan þorsk. Þeir neyðast þá til að kaupa hann af Norðmönnum. Gerist það, er ekki auðvelt að vinna viðskiptin til baka,“ segir Jón Georg Aðalsteinsson, stjórnarformaður Ice-co, í samtali við Fréttablaðið .

Fyrirtækið flytur sjávarafurðir og skyr til Sviss og Þýskalands og segir Jón Georg að komi til verkfalla muni markaðir fyrirtækisins tapast fljótt. Hver dagur skipti sköpum þegar um sé að ræða ferska vöru. Þannig geti verkföll, komi til þeirra, stefnt verðmætu uppbyggingarstarfi við markaðssetningu erlendis í hættu.