Í dag var skrifað undir samninga um kaup Carpenter&Co. á hótelreitnum við Hörpu og að þar verði starfrækt Marriott Edition hótel. Bandaríska fasteignafélagið Carpenter&Co. verður leiðandi í byggingu 250 herbergja, fimm stjörnu hótels sem mun rísa við Hörpu tónlistar-­ og ráðstefnuhús í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fram kemur í tilkynningunni að Arion banki hafi gegnt mikilvægu hlutverki í verkefninu og komið að ýmsum hliðum þess, m.a. við lánsfjármögnun og skipulag á fjármögnun verkefnisins og hafi átt frumkvæði að aðkomu fjárfesta sem nú munu leiða verkið, Eggerts Dagbjartssonar og Carpenter & Co.

„Við höfum lagt ríka áherslu á að fá að þessu verkefni hæfa og reynda aðila og fundum þá í Carpenter&Company og Eggerti Dagbjartssyni sem koma að borðinu með mikla reynslu af hótelverkefnum í Norður-­Ameríku í samstarfi við alþjóðlegar hótelkeðjur. Samningur um Marriott Edition hótel á Hörpureitnum sýnir að verkefnið er komið í góðan farveg. Það er mikilvægt að á þessum góða stað í höfuðborginni verði að öllu leyti vel að verki staðið og höfum við fundið til ábyrgðar hvað það varðar. Því er mjög ánægjulegt að þessum áfanga sé náð,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist snemma á næsta ári.