Discover Financial Services krefst 6 milljarða Bandaríkjadala í skaðabætur í lögsókn gegn Visa og Mastercard. Discover segir fyrirtækin hafa sett rgelur sem hindra samkeppni og koma í veg fyrir vöxt Discover.

Málsóknin hófst árið 2004, en Discover segir Visa og Mastercard hafa komið í veg fyrir að bankar sem skiptu við kreditkortarisana gæfu út kreditkort frá samkeppnisaðilum, eins og t.d. Discover.

Í yfirlýsingu frá Mastercard sem birt er á vefsíðu félagsins segir „Ástæða þess að Discover hefur ekki getað stækkað viðskiptanet sitt er að öllu leyti vegna þess að rekstur þess er lélegur og kemur stefnu Mastercard ekkert við.“

Visa samþykkti að greiða American Express 2,25 milljarða Bandaríkjadala til að forðast dóm í sambærilegu máli í fyrra, samkvæmt frétt MSNBC.