Laun starfsfólks Seðlabankans námu 610.403 krónum að meðaltali á síðasta ári. Þau voru að meðaltali 558.277 krónur árið 2010. Þetta er 9,34% hækkun á milli ára. Í krónum talið nam hækkunin 52.126 krónum á ári. Rekstrarkostnaður bankans nam rétt rúmum 2,3 milljörðum króna. Það er um 20% hækkun á milli ára.

Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn þingmannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um Seðlabankann sem birt var í dag.

Fram kemur í svari ráðherra að umtalsverðar starfsmannabreytingar hafi orðið á milli áranna 2010 og 2011. Starfsmenn bankans voru 137 í fyrra sem er þremur fleiri en ári fyrr. Þar af eru 105 starfsmenn með háskólamenntun.

Nítján starfsmenn létu af störfum og 22 ráðnir. Háskólamenntuðum starfsmönnum fjölgaði um sex milli ára, en háskólamenntaðir starfsmenn eru almennt á hærri launum en aðrir, að því er segir í svarinu. Þá voru nýir kjarasamningar samþykktir og höfðu þeir í för með sér 4,25% launahækkun 1. júní, auk eingreiðslna 1. júní, 1. júlí og 1. desember upp á samtals 75.000 krónur fyrir hvern starfsmann í fullu starfi í fyrra.

Í svari ráðherra er tekið sérstaklega fram að um þróun fjölda starfsmanna bankans á árunum 2008 til 2011 hafi bankastjórar og starfsfólk við ræstingu ekki verið talið með.

Spurning Guðlaugs var eftirfarandi:

Hver hefur verið þróun fjárheimilda, starfsmannafjölda og meðallauna starfsmanna hjá Seðlabanka Íslands frá árinu 2007? Svar óskast sundurliðað eftir árum