Stysta leiðin að auðugara samfélagi er að fella niður námsstyrkjakerfið. Þetta segir aðalritstjóri Børsen, Anders Krab-Johansen. Hann leggur til í leiðara blaðsins í dag að Danir hætti að ausa peningum í námsstyrki sem skili ekki árangri þrátt fyrir ærinn tilkostnað.

„Við Danir erum stoltir af menntakerfinu okkar. Menntun er ókeypis. Allir nemendur fá námsstyrk (SU) – allt að 5.839 kr á mánuði, sem er heimsmet. Við erum líka það land í heiminum sem ver mestu til menntamála, og er námsstyrkurinn ekki tekinn með í þann reikning. Þessar háu fjárhæðir sem renna til menntamála ættu að gera okkur gáfaðari og gáfaðari,“ segir í leiðara Anders í blaðinu. „Þannig er það ekki.“

Meðalmennskan dýru verði keypt

Hann segir mælingar sýna að síhækkandi styrkur til náms hafi afar litlu skilað og að peningunum sé illa varið, því nánast ekkert fáist fyrir þá með þessum hætti. Anders tiltekur kostnað við danska menntakerfið, sem er afar dýrt. „Kerfið er í kröggum. Niðurstöður í alþjóðlegum samanburði sýna að árangur er í meðallagi frá barnaskóla upp í háskóla.“

Hann segir framleiðniaukningu í dönsku hagkerfi hafa staðnað þrátt fyrir að sífellt fleiri útskrifist með háskólagráður. Hann segir vandann meðal annars felast í því að nemendum sé ekki beint í námsgreinar sem séu verðmætar fyrir samfélagið.

Styrkirnir renna til ríkra

„Langvarandi lausn felst í hvötum, sem fær nemendurnar til að mennta sig þannig að gagnist samfélaginu. Útgangspunkturinn er sá að menntun sé góð. Flestir ættu að hafa sem mest af viðeigandi menntun. Þetta gildir óháð fjölskylduaðstæðum.“

Anders segir jafnframt að meginmarkmiði námsstyrkjakerfisins, að tryggja jafnan rétt til náms, hafi ekki verið náð. „Börn úr efnuðum fjölskyldum hafa forskot frá byrjun. Ofan á bætist svo námsstyrkurinn. Börn úr ríkustu tekjutíund fá tvöfalt meira úr námsstyrkjakerfinu heldur en börn úr fátækustu tekjutíund. Námsstyrkjakerfið er vel meinandi, en dýr hugmynd. Ef það hefur einhver jákvæð samfélagsleg áhrif, eru þau hverfandi.“

Hvatarnir eru rangir

„Hvernig fáum við ungt fólk til að mennta sig meira, hraðar og markvisst í námi sem leiðir af sér efnahagslegan ávinning fyrir samfélagið. Stjórnmála- og embættismenn, námsráðgjafar, rektorar, kennarar, lektorar og prófessorar hafa áhrif. En hlutirnir yrðu auðveldari ef nemendur hefðu hvata til að velja menntun á rökréttum grundvelli. Hér liggur vandi Danmerkur, því kerfið er hannað þannig að ávinningurinn við að gera það rétta er enginn eða afar lítill. Við erum fangar í okkar eigin velferðarkerfi. Hin vanhugsaða samfélagshugsun hefur grafið undan tækifærunum til að fá sem mesta velferð út úr dýrasta menntakerfi í heimi," segir í leiðaranum.

„Lausnin á vandamálum Danmerkur eru ekki meiri peningar. Lausnin felst í betri hvötum. Nemendurnir eiga sjálfkrafa að huga að því sem þeir ætla að gera í framtíðinni. Stysta leiðin að lausninni er að losa okkur við námsstyrkina og innleiða námslánakerfi í staðin."