Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækja landsins telja aðstæður í atvinnulífinu í meðallagi og gera þeir ekki ráð fyrir því að þær batni næsta hálfa árið, samkvæmt niðurstöðum könnunar Capacent fyrir Samtök atvinnulífsins (SA). Í könnuninni kemur m.a. fram að mun fleiri telja aðstæður í atvinnulífinu slæmar en góða. Á móti telja þeir nægt framboð af starfsfólki þótt fólk vanti í byggingarstarfsemi, samgöngur og ferðaþjónustu. Þeir gera hins vegar ekki ráð fyrir því að fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum.

Í niðurstöðum könnunar segir jafnframt að stjórnendur 400 stærstu fyrirtækja landsins vænti að jafnaði 3,7% verðbólgu á næstu tólf mánuðum en 4,6% verðbólgu eftir tvö ár. Þeir búast við því að gengi krónunnar veikist heldur á næstunni og að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir í 6%.

Rúmlega 40% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar sem er sama niðurstaða og í könnuninni í maí. Helmingur stjórnenda telur að þær séu hvorki góðar né slæmar en aðeins 7% að þær séu góðar. Hlutfallslega flestir stjórnendur í sjávarútvegi og verslun telja aðstæður góðar (13,5%), en fæstir í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu og iðnaði (3,1-3,3%).

Nánar má lesa um niðurstöður könnunarinnar á vef Samtaka atvinnulífsins.