Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hlaut verðlaun fyrir bestu kynninguna á ráðstefnunni Finovate Europe 2011 sem haldin var í London í gær. Á ráðstefnunni kynntu 35 fyrirtæki tækninýjungar í banka- og fjármálaþjónustu fyrir rúmlega 400 þátttakendum frá um 40 löndum. Finovate, sem er ein þekktasta og virtasta ráðstefnan um tækninýjungar í fjármálageiranum í Bandaríkjunum, var í ár haldin í fyrsta skipti í Evrópu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Meniga.

Úr tilkynningu:

„Í verðlaunakynningunni sagði Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, frá framsæknustu nýjungunum í heimilisfjármálahugbúnaði Meniga en þeim er ætlað að höfða til mun stærri hóps en áður hefur nýtt sér slíkar lausnir og þar með auka umtalsvert ávinning þeirra fjármálastofnana sem bjóða viðskiptavinum sínum upp á heimilisfjármálahugbúnað Meniga.

"Við erum mjög stolt af því að hafa hlotnast þessi heiður frá sérfræðingum Finovate ráðstefnunnar ekki síst í ljósi þess að okkar helstu keppinautar kynntu einnig sínar lausnir á ráðstefnunni," segir Georg. "Þessi verðlaun staðfesta það að heimilisfjármálalausn Meniga er í fremstu röð í heiminum og við finnum mikinn hljómgrunn fyrir því sem við höfum lagt áherslu á frá byrjun að þróa lausn sem höfðar til sem flestra. Þær nýjungar sem við kynntum á Finovate miða allar að því að hvetja fólk til dáða, vekja forvitni þess, t.d. með gagnlegum samanburði við aðra og tengingu við samfélagsmiðla og virkja það betur við stjórn heimilisfjármálanna. Til þess nýtum við m.a. hugmyndir úr leikjafræði. Við hlökkum til að kynna þessar nýjungar fyrir íslenskum notendum Meniga og erum sannfærð um að þeir munu taka þeim fagnandi."

Um Meniga:
Meniga er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki með starfsemi í Reykjavík og Stokkhólmi. Fyrirtækið er leiðandi í þróun heimilisfjármála veflausna fyrir banka og fjármálafyrirtæki í Evrópu. Heimilisfjármálavefur Meniga hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur á Íslandi síðan honum var hleypt af stokkunum í ársbyrjun 2010 og í dag er hann notaður af 6% íslenskra heimila.“