Magn makríls var mikið á íslenska hafsvæðinu, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr rannsóknarleiðangri hafrannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar. Leiðangrinum lauk þann 8. ágúst síðastliðinn.

Hafrannsóknarstofnun segir þó að minna hafi mælst í leiðangrinum núna en það sem var metárið 2012, þegar tæp 1,5 milljónir tonna mældust innan íslenskrar lögsögu. Einnig var umtalsvert magn makríls mælt í grænlenskri lögsögu.

Hafrannsóknarstofnun segir að nokkuð hafi orðið vart við 3ja ára makríl frá Suðausturlandi til Vesturlands sem gæti verið vísbending um að árgangurinn frá 2010 sé stór, en þessi árgangur var einnig áberandi í rannsóknum Norðmanna og Færeyinga vestan við Noreg og í Noregshafi.

Síld fannst víða á rannsóknarsvæðinu, norsk-íslensk síld fyrir austan land og íslensk sumargotssíld fyrir sunnan- og vestanverðu landinu. Bráðabirgðaútreikningar sýna að hátt hlutfall norsk-íslenska síldarstofnsins hafi verið innan íslenskrar lögsögu.