Eftirspurn eftir hlutabréfum tengslanetsvefjarins LinkedIn er svo mikil að fyrirtækið hefur ákveðið að hækka útboðsgengisbil sitt um 10 dollara á hlut. Eins og greint var frá á vb.is nýlega hafði verið ákveðið að útboðsgengið skyldi vera á bilinu 32-35 dollarar á hlut en nú hefur það sem sé verið hækkað í 42-45 dollara. Fyrir vikið verður markaðsvirði félagsins aldrei minna en 4 milljarðar dollara við skráningu. Frá þessu greinir BBC.

LinkedIn verður skráð á markað á morgun en fyrirtækið er hið fyrsta á meðal tengslavefja sem skráð verður á markað. Búist er við að Facebook og Twitter fari á markað áður en langt um líður og má því segja að skráning LinkedIn gefi vísbendingar um hvernig eftirspurn eftir hinum fyrirtækjunum verður.