Jarðarför Nelson Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku verður ein stærsta athöfn sem stjórnvöld í landinu hafa staðið fyrir. Þetta kemur fram í The Telegraph í dag .

Lagt er upp með að sem flestir nái að kveðja leiðtogann sem margir kölluðu „Tata“ sem merkir faðir. Athöfnin verður líklega tíu daga löng og búist er við hundruðum þúsunda þátttakenda.

Þjóðarleiðtogar og önnur fyrirmenni munu streyma til landsins til að votta Mandela og þjóðinni virðingu og samúð. Barack Obama forseti Bandaríkjanna, Frans páfi, Elísabet Bretadrottning, David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, Dalai Lama og Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna eru verða á meðal gesta.

Einnig verða frægir vinir Mandela viðstaddir eins og Bono, söngvari U2, söngkonan Annie Lennox, sjónvarpskonan Oprah Winfrey, fyrirsætan Naomi Campbell og Bill Gates, stofnandi Microsoft. Talið er að athöfnin muni fara fram á stærsta knattspyrnuleikvangi landsins í Soweto en hann tekur 95 þúsund manns í sæti.