Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að frumvarp iðnaðarráðherra um breytingar á samkeppnislögum vera mikil vonbrigði.

„Frumvarpsdrögin sem kynnt voru í dag eru mikil vonbrigði þar sem í þeim er lögð til veruleg veiking á samkeppnislögum sem rýra mun kjör almennings,“ segir Páll Gunnar.

Hann segir jafnframt alvarlegt að með frumvarpinu sé lagt til að felld verði niður heimild Samkeppniseftirlitsins til málskots til dómstóla til að verja hagsmuni almennings og fyrirtækja sem orðið hafa fyrir samkeppnishindrunum.

„Þannig verður Samkeppniseftirlitinu gert ókleift að tryggja að hagsmunir þessara aðila fái fullnaðarúrlausn fyrir dómstólum. Stór fyrirtæki sem eru ósátt við úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála geta borið þá undir héraðsdóm, Landsrétt og eftir atvikum Hæstarétt. Verði frumvarpið að lögum mun hins vegar engin gæslumaður almannahagsmuna geta borið úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Verður þá skapað kerfi þar sem hagsmunagæsla fyrirtækja nýtur að þessu leyti forgangs og yfirburða gagnvart hagsmunum neytenda og smærri fyrirtækja.“

Þá segir Páll það mikið áhyggjuefni að í frumvarpinu sé lagt til að fella úr gildi heimild Samkeppniseftirlitsins til að grípa til íhlutunar vegna tiltekinna skaðlegra samkeppnisaðstæðna. „þessi heimild gerir eftirlitinu t.d. kleift að koma í veg fyrir að fyrirtæki sitji óárétt að einokunarhagnaði almenningi til tjóns.“

Páll segir að lokum að breytingarnar í frumvarpinu séu í ósamræmi við aðrar aðgerðir og vinnu á vegum ráðuneytisins. „Það er ljóst að frumvarpið er í hróplegu ósamræmi við aðgerðir á vettvangi ráðuneytisins, í samstarfi við OECD, sem miðar að því að draga úr samkeppnishindrunum , þ. á m. reglubyrði, sem stafar af lögum og reglum. Sú vinna miðar að því að efla samkeppni, almenningi til hagsbóta, á meðan tillögur frumvarpsins hafa í veigamiklum atriðum þveröfug áhrif, þ.e. veikja samkeppnislögin og draga úr möguleikum Samkeppniseftirlitsins til að stuðla að aukinni samkeppni,“ segir Páll Gunnar Pálsson í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.