Milestone ehf. keypti í dag ráðandi hlut í sænska fjármálafyrirtækinu Invik & Co. AB og gerði öðrum hluthöfum jafnframt yfirtökutilboð að því er kemur fram í tilkynningu félagsins. Heildarvirði viðskiptanna er um 70 milljarðar íslenskra króna. Invik & Co. er fjármálafyrirtæki með víðtæka starfsemi á sænskum trygginga- og fjármálamarkaði, auk þess sem félagið rekur sérhæfða bankastarfsemi í Lúxemborg.

Invik & Co. er skráð í Kauphöllinni í Stokkhólmi (OMX) og stefnir Milestone að því að taka félagið af markaði. Yfirtaka Milestone á Invik & Co. er ein stærsta yfirtaka sem íslenskt félag hefur ráðist í.

Með kaupum á 26% hlut í Invik & Co. hefur Milestone tryggt sér um 63% atkvæða í félaginu og hefur jafnframt gert öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Stjórn félagsins hefur mælt einróma með því að hluthafar gangi að tilboði Milestone. Kaupin eru háð samþykki viðeigandi eftirlitsaðila.

Milestone hefur tryggt fjármögnun kaupanna, en fjárfestingabankarnir Bear Stearns og Morgan Stanley hafa verið Milestone til ráðgjafar við kaupin og fyrirhugaða yfirtöku og fjármagna hluta kaupverðsins.

Invik & Co hefur vaxið mikið á liðnum árum og starfrækir tryggingafélögin Moderna Forsäkringar og Moderna Forsäkringar Liv sem bjóða fjölbreyttar tryggingar á sænska markaðnum. Margvísleg tækifæri liggja í auknu samstarfi Sjóvá, dótturfélags Milestone og þessara félaga. Innan Invik & Co. eru einnig Assuransinvest, Banque Invik og Invik Funds, sem falla vel að starfsemi Askar Capital, dótturfélags Milestone. Heildartryggingaiðgjöld samstæðunnar námu um 12 milljörðum króna á árinu 2006, eignir í umsýslu í verðbréfasjóðum námu um 162 milljörðum króna og í eignastýringu eru um 98 milljarðar króna.

Kaupin marka þáttaskil í rekstri og fjárfestingum Milestone en með kaupum á Invik & Co. verður ríflega helmingur eigna Milestone erlendis. Milestone seldi nýverið kjölfestuhlut sinn í Glitni banka hf. og eftir kaupin á Invik & Co. mun vægi tryggingastarfsemi og sérhæfðrar fjármálaþjónustu aukast til muna. Heildareignir Milestone verða um 341 milljarður króna að yfirtöku lokinni og starfsmenn innan samstæðunnar verða um 900 talsins.

?Invik & Co fellur mjög vel að öðrum eignum Milestone. Við höfum stefnt að sterkari stöðu á norrænum fjármálamarkaði með áherslu á tryggingastarfsemi og sérhæfða fjármálaþjónustu. Við lítum á yfirtökuna sem einstakt tækifæri til að skjóta styrkari stoðum undir rekstur og efnahag Milestone og treysta til muna stöðu Sjóvá og Askar Capital. Það liggja mikil tækifæri í samþættingu og samvinnu þessara eininga," segir Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone í tilkynningu.

Þar er einnig haft eftir Guðmundi Ólasyni, forstjóri Milestone: ?Milestone hefur mikla trú á stjórnendum Invik & Co., enda hefur félagið vaxið jafnt og þétt á öllum sviðum og skilað góðum arði. Með kaupunum horfir félagið til langs tíma og Invik & Co. verður ein af meginstoðum Milestone á næstu árum.?


Milestone er alþjóðlegt fjárfestingafélag í einkaeigu. Í árslok 2006 námu heildareignir félagsins 170 milljörðum króna, hagnaður samstæðunnar nam 21,4 milljörðum og arðsemi eigin fjár var 92%. Milestone leggur áherslu á fjárfestingar í fjármálastarfsemi, tryggingastarfsemi og fasteignum, auk lyfja- og heilbrigðisstarfsemi. Félagið er kjölfestufjárfestir í nokkrum fyrirtækjum innan þessara kjarnasviða, þar á meðal Sjóvá og Askar Capital, auk Lyfja og heilsu.