Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, telur að stjórnvöld hafi ofmetið kosti þess að opna landið fyrir ferðamönnum eftir að ferðalög höfðu legið niðri síðan í mars vegna Covid faraldursins. Þetta kemur fram í skrifum Gylfa í vikuritinu Vísbendingu .

Frá 15. júní síðastliðnum hefur farþegum sem koma til landsins um Keflavíkurflugvöll verið gefinn kostur á að láta skima sig fremur en að fara í tveggja vikna sóttkví.

„Talsmenn ferðaþjónustu héldu uppi mjög öflugum málflutningi um að opnun væri bráðnauðsynleg, ella blasti (réttilega í mörgum tilvikum) við gjaldþrot fyrirtækja, en minna fór fyrir umræðu um hætturnar sem fælust í opnuninni,“ skrifar Gylfi og bætir við að sjaldan hafi verið augljósara hversu mikil áhrif ein atvinnugrein getur haft á ákvarðanir stjórnvalda.

Hann telur að hagsmunir ýmissa þjóðfélagshópa sem verða illa úti í farsótt, svo sem nemenda í skólakerfinu sem hugsanlega verða fyrir óbætanlegum skaða, hafi ekki verið teknir með í reikninginn. „Það er ekki til neinn ‚framkvæmdastjóri samtaka framhaldsskólanemenda‘ sem birtist í fjölmiðlum á hverjum degi.“

„Það er ekki rétt að það hafi verið nauðsynlegt fyrir efnahagslífið að opna fyrir flæði ferðamanna. Önnur eyríki hafa kosið að vernda eigið efnahagslíf og þjóðfélög með öflugum sóttvörnum á landamærum og efnahagur landsins hefur verið framar vonum undanfarnar vikur þótt fáir erlendir ferðamenn væru.“

Gylfi bendir á að Íslendingar vörðu um 200 milljörðum króna á ferðalögum erlendis árið 2019. Í sumar hafi glögglega komið í ljós hvert þessir peningar hafa farið en iðnaðarmenn og verktakar, verslun og þjónusta og jafnvel ferðaþjónusta úti á landi hafa fundið fyrir mikilli eftirspurn.

„Peningunum sem áður var eitt á Strikinu í Kaupmannahöfn, í London eða á sólarströndum er nú varið á Laugavegi, í Kringlunni, í byggingavöruverslunum, til þess að gera upp og viðhalda húsnæði, til þess að byggja sumarbústaði, kaupa hjólhýsi og aðrar tómstundavörur og þannig mætti lengi telja. Hótel hafa verið uppbókuð úti á landi og veitingahús full af Íslendingum.“

„Það er kaldhæðnislegt að opnun landsins hefur með því að mögulega valda annarri bylgju farsóttar valdið ferðaþjónustu skaða.“

Vaxtalækkanir haft tilætluð áhrif

Gylfi, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir þó að áhrif brotthvarfs ferðamanni séu að öllum líkindum meiri en áhrif aukinnar eftirspurnar Íslendinga. Þess vegna hafi Seðlabankinn lækkað stýrivexti niður í 1% í maí. Að hans sögn var tilgangur vaxtalækkunar var að létta greiðslubyrði fyrirtækja og heimila, örva innlenda eftirspurn fyrirtækja og setja gólf undir fasteignamarkaðinn og hefur lækkunin haft tilætluð áhrif.

Ríkisstjórnin hafi einnig aukið útgjöld um rúmlega 300 milljarða sem kemur beint inn í innlenda eftirspurn. Sjálfvirkir sveiflujafnarar ríkisfjármálanna eru einnig að verki og koma fram í minni skatttekjum og hækkun greiðslu atvinnuleysisbóta sem hvort tveggja örvar innlenda eftirspurn.