Orkuveita Reykjavíkur (OR) tapaði 924 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er talsvert minna tap en á sama tíma í fyrra þegar það nam rúmum 3,8 milljörðum króna. Hins vegar hagnaðist OR um þrjá milljarða á öðrum ársfjórðungi samanborið við rúmlega 6,1 milljarðs króna tap á öðrum ársfjórðungi í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri OR að rekstrarhagnaður (EBIT) nam 8,1 milljarði króna á fyrri hluta árs. Það er um um 1,8 milljarða króna betri afkoma en í fyrra. Aðhald á öllum sviðum rekstursins og aukning tekna skýra þróunina. Tekjur námu tæpum 19,3 milljörðum króna á þessu sex mánaða tímabili samanborið við tæpa 16,7 milljarða króna tekjur á sama tíma í fyrra. Þetta jafngildir 16% aukningu. Gjöld drógust á sama tíma saman um um 6%. Afkoman er í samræmi við aðgerðaáætlun OR og eigenda hennar, að því er segir í tilkynningu.

Á móti kemur fram í uppgjöri ÖR að þróun á gengi og álverði á fyrri hluta ársins hafi verið fyrirtækinu óhagstæð. Frá júnílokum, sem uppgjörið miðast við, hafi gengisþróun verið hagstæðari en álverð áfram lágt. Þessir tveir þættir eru, ásamt fjármagnskostnaði, helstu óvissuþættir reksturs OR. Áhrif styrkingar krónunnar frá júnílokum til dagsins í dag og lækkunar álverðs á sama tímabili hefðu samanlagt um átta milljarða króna jákvæð áhrif á rekstrarafkomuna frá uppgjörsdegi, að öðru óbreyttu.

Uppgjör OR var samþykkt á stjórnarfundi fyrirtækisins í dag.

Í tilkynningu OR er haft eftir forstjóranum Bjarna Bjarnasyni, að uppstokkunin í rekstri Orkuveitunnar hafi nú skilað sér í góðri afkomu eins og að var stefnt með aðgerðaáætluninni.
„Traustur rekstur hefur nú gert okkur kleift að semja við lánveitendur um endurröðun gjalddaga og létta þannig greiðslubyrði Orkuveitunnar næstu árin. Nýlegir áhættuvarnarsamningar Orkuveitunnar minnka áhrif þeirra ytri óvissuþátta, sem við höfum ekki stjórn á. Óhagstæð þróun þeirra getur valdið rekstrinum þungu tjóni og fyrir því þurfum við að verja okkur að því marki sem skynsamlegt er,“ segir hann.