Evrópskir bankar eru eiga mikilla hagsmuna að gæta vegna lána til sameinuðu arabísku furstadæmanna. Þó eru bein áhrif af útlánatapi vegna vandamála í furstadæmunum, einkum Dubai, takmörkuð að mati Morgan Stanley en helst óvissan er um möguleika á keðjuverkandi áhrifum af verðfalli á eignum.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Morgan Stanley sendi út í morgun til viðskiptavina sinna.

Nokkur skjálfti hefur verið á hlutabréfamörkuðum erlendis í dag vegna frétta um vandræðin í Dubai, einkum fjárfestingafélagsins Dubai World. Tilkynning Seðlabanka Sameinuðu arabísku furstadæmanna, um að hann muni koma Dubai til hjálpar, sló ekki nema að litlu leyti á áhyggjur manna af vandræðum Dubai. Í

upphafi dags lækkuðu hlutabréfavísitölur skarplega í Abu Dhabi og Dubai og hefur nú verið lokað fyrir viðskipti. Feta forsvarsmenn kauphallarinnar þar í fótspor forráðamanna kauphallarinnar í Moskvu, sem hafa það sem sið að loka kauphöllinni ef miklar lækkanir koma fram.

Þegar lokað var fyrir viðskipti höfðu lækkanirnar verið 7,3 prósent í Dubai og 8,3 prósent í Abu Dhabi. Lækkanir fram til þessa í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa verið undir tveimur prósentum en í Japan hafa hlutabréf hækkað í verði, um rúmlega tvö prósent. Talið er að Japanskir bankar eigi ekki mikið undir vegna skulda sem Dubai gæti lent í vandræðum með að greiða til baka, samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC.

Í skýrslu Morgan Stanley kemur fram að um skuldir Dubai World, sem verið hefur helsti bakhjarl ævintýralegrar uppbygingar í furstadæminu, gætu mögulega ekki fengist endurgreiddar og er þar horft sérstaklega sameiginlegra lána margra banka. Um er að ræða um 13 milljarða dollara skuldir. Að mati Morgan Stanley eru litlar líkur á að evrópskir bankar eigi meira en 225 milljónir dollara hagsmuni af þessum 13 milljörðum sem er hluti af sameiginlegum lánum margra banka (syndicated loans).

Af 87 milljarða dollara heildarútlánum evrópskra banka til Sameinuðu arabísku furstadæmanna sjö, þar helst til Abu Dhabi og Dubai, eiga breskir bankar um 50 milljarða dollara af þeim útlánum. Samkvæmt heimildum Morgan Stanley, eiga Royal Bank of Scotland (RBS), HSBC, Lloyds og fleiri bankar mikilla hagsmuna að gæta. Tekið er fram að RBS sé einn af þremur stærstu lánveitendunum vegna fyrrnefndrar 13 milljarða dollara skuldar en þó með undir 225 milljónir dollara af þeim, eins og áður segir.

Helsta óvissan er hvort vandræðin í Dubai muni hafa keðjuverkandi áhrif á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ekki síst vegna þess að fjárfestar eru enn áhættufælnir, eftir hamfarirnar á fjármálamörkuðum sl. haust og framan af þessu ári. Ótíðindi geta þannig haft meiri áhrif en í venjulegu árferði.