Mosfellsbær efndi á dögunum til skuldabréfaútboðs til lífeyrissjóða á verðtryggðum skuldabréfum og sá Saga Capital Fjárfestingarbanki um útboðið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ en boðnar voru út 1.000 milljónir króna á 5,0% vöxtum til tíu ára.

Sölunni er að mestu lokið og er jákvæð niðurstaða útboðsins viðurkenning á sterkri fjárhagslegri stöðu Mosfellsbæjar,“ segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

„Þetta er með bestu lánskjörum sem sveitarfélögum hefur boðist á árinu,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að lánsféð verður nýtt til endurfjármögnunar skulda og til þess að ljúka þeim verkefnum sem eru í gangi vegna uppbyggingar í Mosfellsbæ. Þar á meðal er bygging nýs, framsækins skóla, Krikaskóla, sem tekinn verður í notkun snemma á næsta ári.

„Mosfellsbær er ekki skuldsett bæjarfélag og er með lágt hlutfall skulda í erlendri mynt. Sveitarfélagið hefur ekki tekið langtímalán síðan 2004 og hefur undanfarin fimm ár greitt niður skuldir,“ segir í tilkynningunni. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins með um 8400 íbúa og hefur þeim fjölgað um 57% á síðustu tíu árum.